Vegan grjónagrautur (Sykurlaus en sætur)

Þessi grjónagrautur er alveg einstaklega bragðgóður fyrir allan aldur. Hann er án viðbætts sykurs en döðlurnar gera hann sætann og er því einnig óþarfi að nota sætu ofaná grautinn með kanilnum.

3 dl Stutt lífræn brún hýðishrísgrjón
6 dl Vatn
9 dl Möndlumjólk sem er án sætu
9 til 15 stk Ferskar döðlur (fer eftir stærð og hversu sætan graut maður vill)
¼ – ½ tsk Möluð lífræn vanilla
Kanill og kókosmjöl
  1. Hrísgrjónin eru sett í sigti og skoluð.
  2. Vatnið og hrísgrjónin fara saman í pott með loki og soðin þar til vatnið er farið (eða að mestu farið).
  3. 7 dl af möndlumjólk  bætt útí í pottinn og grauturinn eldaður á lágum hita þar til mjólkin er nánast farin.
  4. Þrífa fersku döðlurnar og fjarlægja steinana.
  5. 2 dl af möndlumjólk í blandara ásamt döðlunum og vanillunni og maukað saman og bætt við grautinn í pottinum.
  6. Elda grjónagrautinn á lágum hita og passa að hræra reglulega í svo að döðlukremið festist ekki við pottinn. Leyfa döðlukreminu að eldast alveg saman við grjónagrautinn.
  7. Blanda saman kanil og kókosmjöli og setja ofan á grautinn þegar hann er tilbúinn og kominn í skál. Einnig gott að setja bara hreinan kanil ofaná.
  8. Það er mjög einfalt að minnka eða auka magnið af grautnum sem maður vill búa til. Hlutföllin eru: 1 dl hrísgrjón á móti 2 dl af vatni og 3 dl af möndlumjólk, 3-5 ferskar döðlur fyrir hvern dl af hrísgrjónum. Ég set 5 stk ferskar döðlur af minni gerðinni, þær fást í flestum verslunum og er að finna í grænmetisdeildinni.

Mér finnst gott að láta grautinn standa á hellunni eftir að ég er búin að setja döðlukremið saman við. Þá leyfi ég grautnum fyrst að alveg hitna í gegn á lágum hita í soldinn tíma og síðan slekk ég á hellunni en leyfi pottinum að vera ennþá á hellunni og ég hræri við og við í pottinum, þannig kemst ég líka hjá því að döðlukremið festist við pottinn.

Hlutfallið af möndlumjólkinni saman við döðlurnar fer eingöngu eftir stærðinni á blandaranum eða því matvinnslutæki sem maður er að nota, bara að hafa nægann vökva til þess að ná að blanda vel saman í því tæki sem maður notar og magnið getur þess vegna verið meira eða minna miðað við það hlutfall sem er gefið upp í lýsingunni.

Ef maður á ekki matvinnslutæki þá er hægt að skola fersku döðlurnar og fjarlægja steinana og fyrir betri áferð fjarlægja einnig ysta lagið af döðlunni (þunnt hýði) og hræra vel saman við grjónagrautinn í pottinum.

Ég nota annað hvort heimagerða lífræna möndlumjólk eða kaupi tilbúna sem inniheldur vatn, lífrænar möndlur og sjávarsalt.

 


Uppskrift: Jónína Ásdís
Snapchat: joninaasdis