Vegan Smalabaka

Það sem mér finnst dásamlegast við smalabökur er fjölbreytileikinn og hvað margar útgáfur eru til, mér datt því í hug að deila minni útgáfu.

Ég elska smalabökur úr Puy linsum því það helst svo gott bit í þeim þrátt fyrir mikla eldun, ég hef verið að tilraunast með soyahakk og allskonar baunir en enda alltaf aftur í þessari því mér finnst hún einfaldlega best. Hráefnið í þessari smalaböku er einnig mjög aðgengilegt t.d. hef ég eldað hana á Siglufirði allt til í hana kjörbúðinni þar.

INNIHALD:

3 dl Grænar Puy linsur (hægt að skipta út fyrir aðrar linsur)
2 L Vatn
1 stk Sellerí stöngull (c.a. 30g)
2 – 3 stk Gullrætur (c.a. 100g)
1 stk Laukur (c.a. 150g)
35 gr Grænmetis kraftur (ég nota 1x Kallø franskur lauk tening og 2x Kallø tómat tening, en hægt að skipta út fyrir svipað magn af öðrum grænmetiskraft)
70 gr Tómatpúrra
750 gr Soðnar Kartöflur
10 gr Saxaður hvítlaukur (c.a. 10g)
3 dl Plöntumjólk (Ég nota bláa provamel soyamjólk, finnst hún gefa creamy áferð, en hvaða plöntumjólk sem er dugar fyrir þá sem ekki þola soya)
70g Smjörlíki eða matarolíu (má sleppa og nota smá vatn í staðin til að steikja uppúr. Til eru flott vegan smjör t.d. Earth Balance Organic úr Gló og Nutana úr Krónunni)
Salt

Hitið ofninn í 170°C á blæstri.

LEIÐBEININGAR – BAUNAFYLLINGIN:

  • Vatnið og linsurnar settar í pott.
  • Grænmetiskraft og púrru bætt út í vatnið.
  • Grænmetið saxað fínt, helst svipað smátt og linsurnar, gætið þess þó að merja ekki laukinn og sellerí stilkinn.
  • Setjið grænmetið út í og sjóðið í c.a. 40 mínútur, gætið þess að hræra vel í í lokin svo það brenni ekki við þar sem blandan þykknar auðveldlega. Suðutími er misjafn, því best að miða við að það sé en bit í linsunum frekar en nákvæmann tíma.

LEIÐBEININGAR – KARTÖFLUMÚSIN:

  • Sjóðið kartöflurnar og afhýðið þegar tilbúnar.
  • Setjið smörlíkið og hvítlaukinn út í pott og steikið í stutta stund.
  • Bætið kartöflunum út í og stappið saman við smjörlíkið.
  • Bætið soyamjólkinni saman við og stappið þar til kartöflumúsin er orðin nokkuð jöfn.

LEIÐBEININGAR – SMALABAKAN:

  • Setjið fyllinguna í eldfast mót og bætið kartöflu mús ofan á, bakið við 170°C í 20 mínútur eða þar til kartöflumúsin er orðin fallega gyllt.

Mér finnst gott að bera fram með fersku salati og létt soðnu spergilkáli, en í raun hvað sem er gengur.


Uppskrift upphaflega fengin frá:
http://veganlifid.is/uppskriftir/smalabaka/